Innlent

Grunaður um brot í starfi

Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra hefur verið leystur frá störfum vegna rökstudds gruns um brot í starfi. Maðurinn skráði bíl embættisins á sambýliskonu sína, sem er lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, árið 2001. Þá notaði hann, á þessu ári, bíl embættisins í eigin þágu. Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglu, segir embættið hafa beint erindi sínu um aðstoðaryfirlögregluþjóninn til ríkissaksóknara, dómsmálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar 20. desember síðastliðinn. Maðurinn sá um bílamiðstöð embættisins og sá meðal annars um að koma bílum, sem embættið var hætt að nota, á uppboð. Einn þeirra bíla skráði hann á sambýliskonu sína eins og bíllinn væri seldur án þess að greiðsla bærist. Á þessu ári notað hann síðan einn bíla embættisins til einkanota í stað þess að koma honum í sölu. Ríkissaksóknari hefur fengið málið til rannsóknar og mun ákveða hvort maðurinn verður ákærður fyrir brot sín. Í dómsmálaráðuneytinu verður ákveðið hvernig tekið verður á stöðu mannsins hjá ríkislögreglustjóra sem hann var skipaður í af ráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×