Innlent

Hundruð kílóa af fölsunum

Starfsmenn Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hafa á þessu ári tekið nokkrar sendingar með nokkur hundruð kílóum af falsaðri merkjavöru, m.a. fatnaði, hljómdiskum og blekhylkjum. Varan var haldlögð, málin kærð og eru í rannsókn. Guðbjörn Guðbjörnsson, deildarstjóri í fraktdeild, segir að undanfarin tvö ár hafi staðið yfir átak gegn innflutningi af þessu tagi. Þetta sé litið alvarlegum augum en fólk geri sér oft ekki grein fyrir því að þarna sé um þjófnað að ræða. Þegar fölsuð merkjavara sé flutt inn sé brotið á hegningarlögum, hugverkarétti og tollalögum. "Neytendur gera sér ekki grein fyrir því að þeir eru að kaupa köttinn í sekknum þegar þeir borga stórfé fyrir hrikalega lélega vöru. Menn þurfa að vera á varðbergi gagnvart svona fölsunum," segir Guðbjörn og bendir fólki á að kynna sér málið ef það er í vafa, t.d. með því að hafa samband við rétta innflytjandann. "Það er um að gera að láta lögreglu og okkur vita ef fólk verður vart við svikna vöru," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×