Innlent

Varð brátt í brók

Ætlað kókaín fannst á 25 ára gömlum Nígeríumanni við tollskoðun í Leifsstöð á þriðjudagskvöld. Strax vaknaði grunur um að maðurinn væri með meira magn fíkniefna innvortis sem var sannreynt með röntgenskoðun sama kvöld. Efnin, sem fundust á manninum, voru í bakpoka sem hann bar. Ekki leyndi sér hvar efnið höfðu verið geymd áður en þeim var komið fyrir í bakpokanum og var hann því sendur í frekari skoðun. Þar kom í ljós að maðurinn var með meira magn fíkniefna innvortis en það sem hann þurfti að skila úr líkamanum í flugvélinni á leiðinni til landsins. Ekki er hægt að segja til um heildarmagn efnisins, sem talið er vera kókaín, en það er á bilinu 150 til 400 grömm. Eftir að maðurinn var handtekinn hefur hann skilað einhverju magni til viðbótar en við aðra röntgenskoðun kom í ljós að hann var enn með eitthvert magn innvortis. Hann var úrskurðaður, í Héraðsdómi Reykjaness, í tveggja vikna gæsluvarðhald á miðvikudag. Maðurinn sem hefur dvalarleyfi í Austurríki kom með flugi frá Kaupmannahöfn. Götuverðmæti efnanna gæti verið á bilinu tvær til sextán milljónir íslenskra króna, allt eftir því hversu sterkt efnið er og hvert heildarmagnið reynist vera.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×