Innlent

Sextán seldu unglingum tóbak

Sextán sölustaðir í Hafnarfirði af 27, eða 59 prósent, seldu unglingum tóbak í nýlegri könnun sem forvarnarnefnd Hafnarfjarðar gerði. Útkoman er betri nú en í vor þegar 62 prósent sölustaða seldu unglingum tóbak. Þó útkoman nú hafi verið betri en í vor segir í tilkynningu frá forvarnarnefndinni að svo virðist sem seljendur í Hafnarfirði séu að auka tóbakssölu til barna. Samt eru aðrir seljendur stöðugt að setja skýrari reglur til að tryggja að aldurstakmörk séu virt. Nýlegar rannsóknir á lífsstíl hafnfirskra unglinga sýna að reykingar hafa dregist saman eins og á landinu í heild. Við gerð könnunarinnar fóru tveir sextán ára unglingar, úr tíunda bekk, á sölustaði undir eftirliti starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar. Í fyrri könnunum fóru fjórtán ára unglingar á sölustaði. Eftirtalir staðir seldu unglingunum ekki tóbak Bónusvideo Lækjargötu, Videoholtið, Samkaup, Egyptinn, Olís Vesturgötu, Essó Reykjavíkurvegi, Hvammur, Holtanesti, Krónan, Jolli og 10-11 Setbergi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×