Viðskipti innlent

Kaupa 160 pöbba í London

KB banki fjármagnar ásamt Bank of Scotland kaup bresk-íranska milljarðamæringsins Robert Tchenguiz á 160 krám í verslunarhverfum í Bretlandi. Auk þess að vera einn höfuðlánardrottinn viðskiptanna eignast bankinn hlut í fyrirtæki. KB banki hefur haft umsjón með nokkrum fyrirtækjakaupum í London á undanförnum misserum. Kaup Tchenguiz á kráakeðjunni eru fyrstu fyrirtækjakaup með aðild KB banka þar sem breskir kaupsýslumenn sitja beggja vegna borðsins. Heildarumfang viðskiptanna er 150 milljón pund eða um átján milljarðar króna. Robert Tchenguiz var í 101. sæti yfir ríkasta fólk Bretlands á lista sem Sunday Times birti á þessu ári. Hrein eign hans er metin 50 milljarðar króna og heildareignir á um 500 milljarða króna. KB banki hefur áður unnið að verkefnum með Tchenguiz, en í þeim hefur ekki orðið af viðskiptum. Bankinn vann með honum að kaupum á Odeon kvikmyndahúsakeðjunni, auk tilraunar til kaupa á verslunarkeðjunni Selfridges. Tchenguiz keypti í síðustu viku 364 krár og nú hafa 160 bæst við. Hann hefur lýst miklum áhuga á að byggja upp veldi í kráargeiranum og er orðaður við yfirtöku á Regent Inns keðjunni sem hann á fimmtán prósenta hlut í.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×