Innlent

Skrítin skilaboð

Ósennilegt er að grunnskólanum takist að vinna upp átta vikna verkfall í tíunda bekk og mörgum skólamönnum þykir undarlegt að Námsmatsstofnun skuli ekki ætla að breyta samræmdu prófunum til samræmis við það. Sölvi Sveinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Ármúla, segir að allt að 20 prósent framhaldsskólanema í landinu taki upprifjunaráfanga í stærðfræði og dönsku á hverju hausti og sá hluti verði sjálfsagt stærri ef prófað verði úr óbreyttu námsefni í vor. "Það er miklu betra að afmarka aðeins þættina sem prófað er úr og gefa krökkunum möguleika á að ná þessu upp í framhaldsskólanum. Í íslensku og dönsku mætti fækka textum en í stærðfræði er þetta erfiðast. Að sama skapi er ekki hægt að læra stærðfræði helmingi hraðar en fyrir verkfall," segir hann. "Mig óar við því að ekki sé hægt að finna einhverja skynsamlegri lausn en að prófa úr óbreyttu námsefni þegar krakkarnir fá átta vikum skemmri tíma í yfirferð. Það finnast mér vera skrítin skilaboð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×