Erlent

Úrslitin verði ógilt

Forseti úkraínska þingsins telur að ógilda eigi úrslit forsetakosninganna til að binda enda á þá ólgu sem ríkt hefur í landinu. Úkraínska þingið fjallar um þá ólgu sem ríkt hefur í landinu eftir forsetakosningarnar um síðustu helgi, en allir stjórnmálaflokkar, nema flokkur Viktors Janúkóvits, forsætisráðherra, sitja neyðarfundinn. Janúkóvits var lýstur sigurvegari kosninganna og vakti það hörð viðbrögð helsta keppinautar hans, Viktors Júsjenkós, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem sakar stjórnvöld um kosningasvik. Mikil reiði er meðal almennings, sem krefst þess að úrslit kosninganna verði gerð ógild. Um hundrað þúsund mótmælendur eru nú fyrir utan þinghúsið í Kænugarði og lýsa yfir stuðningi sínum við Júsjenkó, en hann krefst þess að nýjar kosningar verði haldnar 12. desember næstkomandi. Janúkóvits varar aftur á móti við því að valdarán verði framið, og hvetur stuðningsmenn sína til þess að koma í veg fyrir það. Haft var eftir honum í gær að honum hugnaðist þó ekki að taka við völdum, sem gætu leitt til blóðsúthellinga. Júsjenkó segist reiðubúinn til að grípa til róttækra aðgerða innan fárra daga, takist honum ekki að ná samkomulagi við Janúkóvits, en margir óttast að það kunni að leiða til blóðugra átaka og jafnvel borgararstyrjaldar. Javier Sólana, yfirmaður utanríkismála Evrópusambandsins, hefur ásamt öðrum fulltrúum í alþjóðlegri samninganefnd, reynt að miðla málum, en án árangurs. Hann segir mikilvægt að tryggja stöðugleika og lýðræði í Úkraínu, en segir enga tryggingu fyrir því að forsætisráðherrann og leiðtogi stjórnarandstöðunnar komist að samkomulagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×