Erlent

Fundað um stöðuna

Víktor Janúkovítsj, forsætisráðherra Úkraínu, og Víktor Júsjenko, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sitja á fundi með fulltrúum Rússlands og Evrópusambandsins til að reyna að leysa deiluna um forsetakosningarnar. Janúkovitsj skorar á stuðningsmenn sína að koma í veg fyrir valdarán. Forsetar Póllands og Litháens, yfirmaður utanríkismála ESB, og fulltrúar rússneskra stjórnvalda, eru komnir til Kænugarðs í Úkraínu til að reyna að miðla málum og leysa deiluna um forsetakosningarnar í landinu. Júsjenkó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sakar stjórnvöld um að hafa tryggt Janúkóvitsj, forsætisráðherra, sigur í kosningunum með svindli, og hefur Hæstiréttur landsins bannað birtingu úrslitanna. Leóníd Kútsma, fráfarandi forseti, segir vonir bundnar við það að viðunandi lausn finnist á kreppunni. Janúkóvitsj sagði við stuðningsmenn sína, fyrir fundinn með alþjóðlegu samninganefndinni, að hann vildi ekki taka við völdum sem leiddu til blóðsúthellinga. Hann sagði að allt yrði að gera til að koma í veg fyrir valdarán og að löglega kosnum stjórnvöldum væri hent frá völdum. Hann sagðist trúa á stjórnarskrá Úkraínu og mátt fólksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×