Lífið

Graffití í nýja herbergið

"Ég var búinn að sjá svona graffítí niður í bæ og langaði rosalega í svoleiðis í herbergið mitt. Ég og vinir mínir teiknum svoleiðis á blað og þannig kviknaði hugmyndin. Allir vinir mínir eru núna frekar spældir og langar sjálfa í svona í herbergin sín," segir Alex en Rósa, móðir hans, fann "graffara" til að teikna á vegginn hjá honum. "Ég þekki Steina, sem er guðfaðir graffítisins, og hann benti okkur á Orra sem samþykkti að gera svona í herbergið hans Alex. Þetta er tréveggur og ég sagði við manninn minn að ég vildi helst setja graffítí líka hinu megin og taka vegginn síðan með ef við flytjum," segir Rósa og hlær. "Annars langar mig í svona á einn vegg í stofunni eða kannski á striga sem málverk. Mér finnst þetta ótrúlega flott," bætir Rósa við. "Graffarinn" sjálfur, Orri, er búinn að fikta við þetta síðan hann var sextán eða sautján en hann er 24 ára í dag. "Þegar ég byrjaði kunni ég eiginlega ekki neitt og prófaði mig bara áfram. Ég er rólegri núna en ég var og er ekkert að stelast út um helgar lengur. Ég hef aðeins öðruvísi metnað núna," segir Orri. Orri er búinn að gera graffítí á annan vegginn hjá Alex og á eftir smá á öðrum vegg. "Þetta er það nálægt manni að ég þarf að gera öll smáatriði mjög vel. Ég mætti hingað klukkan tíu einn morguninn og var ekki búinn fyrr en um hálf fjögur leytið þannig að þetta er frekar tímafrekt. Fyrir það var ég búin að vinna undirbúningsvinnu, teikna skissur og svoleiðis," segir Orri sem "graffar" töluvert í heimahúsum hjá fólki en þess á milli úðar hann líka á striga. Graffítíð setur vissulega sérstakan svip á herbergið hans Alex. Í verkinu stendur nafn Alex með mjög skemmtilegum stöfum og það gerir verkið enn persónulegra. Graffítí er góð leið til að brjóta upp rými og er ekki ósvipað veggfóðrinu sem tröllríður öllu um þessar mundir. Ekki er ósniðugt að setja svona á einn vegg í herbergi til að skapa smá karakter á nýjum stað. Verkið þarf auðvitað að tóna við persónuna sem býr í herberginu og gerir þetta töff graffítí hjá Alex það svo sannarlega þar sem Alex er algjör töffari sjálfur. Og engin furða að allir vinirnir séu hálf afbrýðissamir út í þessa skemmtilegu tilbreytingu - en þeir koma þá bara oftar í heimsókn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.