Innlent

Hindra endurtekið ófremdarástand

Fræðsluráð Reykjavíkur vill láta finna leiðir til að koma í veg fyrir að viðlíka ófremdarástand og skapaðist þegar skólar voru lokaðir vikum saman vegna verkfalls kennara, endurtaki sig. Ráðið hefur farið fram á að gerð verði stjórnsýsluúttekt á öllu samningaferli grunnskólakennara og sveitarfélaganna.  Skipaður verður hópur sérfræðinga sem á að greina kosti og galla nýliðinna kjaraviðræðna, og fjalla sérstaklega um störf launanefndar sveitarfélaganna og valdaframsal sveitarfélaga og kjörinna fulltrúa til hennar. Leitað verður til talsmanna deilenda um upplýsingar og álit á samningsferlinu og hvers vegna svo hafi tekist til sem raun ber vitni. Þá á hópurinn að skila áliti um vænleg vinnubrögð í framtíðinni.  Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs, segir að tilgangurinn með þessu sé að reyna að læra af þeim miklu ógöngum sem kennaradeilan hafi greinilega lent í og koma þannig í veg fyrir að þetta endurtaki sig.. Ekki er hér átt við að taka þurfi verkfallsrétt af kennurum heldur koma á ferli sem leiði til þess að þeir þurfi ekki að grípa til þess réttar síns. Stefán segir það að sjálfsögðu sjást víða í samfélaginu, og í öðrum samfélögum, að menn geta komist að samkomulagi þar sem báðir deiluaðilar telji sig hafa svo mikinn ávinning af því að semja friðsamlega að ekki er gripið til verkfallsvopna. Spurður hvort tilgangurinn sé ekki að draga menn til ábyrgðar segir Stefán svo ekki vera; tilgangurinn sé að reyna að finna lausnir.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×