Innlent

Uppsagnir á Ólafsfirði

Sveitarstjórnarmenn fagna því að samningar hafi náðst við kennara. Staðan er víða þröng og því leita stjórnendur sveitarfélaganna að ráðum til að bregðast við þeim kostnaðarauka sem samningurinn hefur í för með sér. Ef ekki er hægt að hækka skatta verður að draga saman útgjöld, t.d. með niðurskurði í æskulýðs- og íþróttastarfi, samdrætti í rekstri, minni snjómokstri, minni stuðningi við félög og sjálfboðastarf eða minna starfshlutfalli starfsmanna. Í Ólafsfirði neyðast bæjaryfirvöld til að segja upp fólki. Í Fjarðabyggð er gert ráð fyrir almennum launahækkunum til allra bæjarstarfsmanna á grundvelli ASÍ-samningsins í drögum að fjárhagsáætlun. Kjarasamningur kennara kostar bæinn 30 milljónir umfram þær áætlanir. Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri segir ekki um margt að ræða, skera niður þjónustu eða framkvæmdir. "Rekstur sveitarfélagsins er erfiður eins og allra annarra sveitarfélaga og menn reyna að bregðast við með því að skera niður á móti auknum útgjöldum," segir hann. Á Ólafsfirði hafa tekjur minnkað og því verður samdráttur í þjónustu. "Það er hægt að draga saman þjónustu í íþróttahúsinu, gera forstöðumönnum að spara ennþá meira í rekstri, minnka starfshlutfall hjá fólki. Við neyðumst líka til að segja upp fólki. Hér gerum við ekki ráð fyrir neinum framkvæmdum á næsta ári. Við verðum í miklum og hörðum aðgerðum og þær koma alls staðar niður en auðvitað stöndum við við skyldur gagnvart starfsfólki," segir Stefanía Traustadóttir, bæjarstjóri á Ólafsfirði. "Þetta þýðir verulegan kostnaðarauka. Við erum að vinna í fjárhagsáætlun og sú staða er satt að segja mjög þröng. Það er alveg ljóst að hún verður meira en þröng í framhaldi af þessari niðurstöðu," segir Reinhard Reynisson, bæjarstjóri á Húsavík: "Tekjurammi sveitarfélaganna er engan veginn fullnægjandi. Það er orðið enn meira knýjandi að ríkisvaldið komi fram við sveitarfélögin af sanngirni í þeim samningaviðræðum sem eru í gangi. Óbilgirni ríkisvaldsins í garð sveitarfélaganna varðandi tekjuskiptingu er hreinlega með ólíkindum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×