Menning

Þurfti að tvíkúpla

"Bíllinn minn er fjórhjóladrifinn Toyota Touring, en það er mikinn kostur að hafa fjórhjóladrif því þá kemst ég hvenær sem er á fjöll á skíði," segir Magdalena Margrét Kjartansdóttir myndlistarkona en segist svo sem ekkert vera nein sérstök bílakona þótt hún hafi alltaf haft gaman að fallegum bílum. "Fyrsti bíllinn sem ég keyrði var eldgömul drossía með leðri og maður þurfti að tvíkúpla til að skipta um gír," segir Magdalena en bætir við að hún hafi nú ekki lengi átt bíl framanaf enda hafi tíðin verið önnur. "Ég öðlaðist miklar vinsældir í partíum í gamla daga þegar fólk vissi að ég væri ekki að drekka en þegar það áttaði sig á að ég væri ekki á bíl þá dofnuðu vinsældirnar," segir Magdalena hlæjandi en minnist fyrsta bílsins sem hún átti sem var blágræn Volkswagen bjalla. "Nú í dag eru allir bílar gráir, það vantar alveg litadýrðina í þetta. Ég á hvítan bíl núna og átti gráan síðast," segir Magdalena kíminn, en þessa dagana er hún með sýningu í Hallgrímskirkju á verkum sínum. "Ég er reyndar nýkomin frá Finnlandi þar sem ég tók þátt í sýningu ásamt þremur öðrum íslenskum myndlistarkonum, og það var fjallað mjög vel um okkur í fjölmiðlum þar og með mikilli virðingu. Finnar eru mjög færir að fjalla um listina og það er kannski orðin klisja en þeir komu auga á að það væri eitthvað sérstakt við íslenska list," segir Magdalena, en sýningin hennar í Finnlandi er enn í fullum gangi. "Ég hef verið starfandi listamaður í ein 20 ár og maður verður að halda sér við efnið."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×