Innlent

Örvænting hjá kennurum

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, er svartsýnn á að árangur náist í kennaradeilunni í dag. "Þetta mál er komið í ákveðinn farveg. Það er grábölvað að til þessa hafi þurft að koma en ég held að engum blandist hugur um að þetta var í rauninni óhjákvæmilegt. Ég held að það hafi verið fullreynt að ná samkomulagi," segir hann. Kristjáni finnst orð kennaraforystunnar um að samningsumboð sé komið aftur heim í hérað bera vott um ákveðna örvæntingu í þeirri stöðu sem upp er komin og ekki í neinu samræmi við það sem áður hafi komið fram. "Þessi örvænting er vel skiljanleg," segir hann og telur að ástandið sé óbreytt, umboðið sé enn hjá samninganefndinni. Í gær var talað um að kennarar myndu skrá sig veika í miklum mæli í dag. "Það kæmi mér verulega á óvart ef allt í einu yrðu allsherjarveikindi hjá einni starfsstétt. Ég ætla hvorki kennurum né öðrum slíka hluti."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×