Erlent

Sláturhús gíslanna fundið

Íraskir hermenn hafa fundið "sláturhús gísla", hús þar sem hryðjuverkamenn héldu gíslum föngnum og myrtu þá, sagði Abdul Qader Mohan, hershöfðingi og yfirmaður írösku hersveitanna í Falluja. Hann sagði að húsin væru í norðurhluta borgarinnar þar sem búist hefði verið við mestri mótspyrnu. "Við höfum fundið sláturhús í Falluja sem var notað af þessu fólki og svartan klæðnað sem þeir notuðu til að einkenna sig," sagði Mohan og bætti við að þar hefðu einnig fundist skýrslur með nöfnum gísla. Háttsettir bandarískir herforingjar sögðu hermenn hafa náð 70 prósentum Falluja á sitt vald og áttu von á að stjórna henni allri innan tveggja daga. Einn herforingi sagðist þó telja að margir vígamenn hefðu flúið borgina áður en árásin á hana hófst. Aðrir sögðu vígamenn hafa misst alla yfirsýn og samband sín á milli. Óvíst er með mannfall. Bandaríkjaher segir á annað tug bandarískra hermanna hafa fallið og nokkur hundruð vígamenn. Ekki er vitað um mannfall meðal óbreyttra borgara. 22 létust í bardögum í norðurhluta Íraks á sama tíma og barist var í Falluja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×