Innlent

Hótað fyrir að kaupa Irving-olíur

Forsvarsmenn Olís hótuðu að setja eiganda smurverkstæðis á Höfn í Hornafirði á hausinn ef hann myndi kaupa smurolíur af umboðsmanni Irving á Íslandi. Þetta segir Olgeir Jóhannesson, sem rak Smur og dekk á Höfn í ellefu ár. Hann hætti rekstri fyrir skömmu. Hann segir að árið 2001 hafi honum verið boðin smurolía frá Irving á helmingi lægra verði en Olís hefði selt honum á. Hann sagðist hafa ætlað að taka tilboðinu en misst það út úr sér við forsvarsmenn Olís og þeir hafi brugðist ókvæða við. "Þeir hótuðu því að setja mig á hausinn ef ég myndi kaupa Irving-olíur," segir Olgeir. "Þeir sögðu að ef ég myndi kaupa Irving-olíur myndu þeir setja upp aðra smurstöð við hliðina á mér og hirða af mér öll viðskiptin. Þetta voru náttúrlega fáranleg viðbrögð sem komu mér algjörlega á óvart. Ég var ekkert háður Olís og átti til dæmis sjálfur húsnæðið sem smuverkstæðið var í. Eftir þessar hótanir þorði ég samt ekki annað en að hætta við. Olís vildi samt ekkert gera fyrir mig. Lækkuðu ekki verð á olíunni sem þeir seldu mér eða neitt slíkt." Sigurður Eiríksson, sem var umboðsmaður fyrir Irving-smurolíur á þessum tíma, segist vel muna eftir þessu. "Svona var þetta alls staðar þar sem mínir sölumenn komu," segir Sigurður. "Vegna hótana olíufélaganna voru menn logandi hræddir við að skipta við okkur jafnvel þótt þeir vildu það. Við vorum samt það ódýrir að sumir lögðu það á sig að koma til okkar á kvöldin, nánast í skjóli nætur, með tunnur frá Essó, Skeljungi eða Olís og við fylltum á þær. Þannig voru viðskiptin um tíma." Sigurður segir að það hafi ekki verið hægt að stunda viðskipti undir þessum kringumstæðum, þess vegna hafi hann einfaldlega neyðst til að hætta. "Það var bara alls staðar lokað á kaup hjá okkur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×