Innlent

Thomas hættir í stjórn Símans

Thomas Möller, fyrrverandi markaðsstjóri Olís, sagði sig úr stjórn Símans í gær vegna niðurstöðu samkeppnisráðs um verðsamráð olíufélaganna. Samkvæmt niðurstöðunni átti Thomas aðild að samráðinu, meðal annars í viðskiptum við Símann. Thomas vék úr stjórn Símans í fyrra vegna rannsóknar Samkeppnisstofnunar á málinu en Geir H. Haarde fjármálaráðherra skipaði hann aftur í stjórnina í mars á þessu ári. Í tilkynningu frá Thomasi segir að nú þegar ákvörðun samkeppnisráðs liggi fyrir hafi hann ákveðið að segja sig úr stjórninni. Þá biðst hann afsökunar á aðkomu sinni að málinu og vonast til þess að með ákvörðun sinni takist honum að koma í veg fyrir að hann skaði Símann. Hann hefur einnig ákveðið að hætta störfum sem stjórnarformaður landkynningarverkefnisins Iceland Naturally um áramótin. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra skipaði hann til starfans í júní á síðasta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×