Innlent

Verkfall brestur á að nýju

Kennarar kolfelldu miðlunartillögu ríkissáttasemjara í deilunni við sveitarfélögin. 93% þeirra voru á móti tillögunni. Launanefnd sveitarfélaga ætlar að biðja kennara um að aflýsa verkfalli en formaður Kennarasambandsins segir að það verði ekki gert nema nýtt útspil komi frá launanefndinni í kvöld. Allt bendir til þess að verkfall kennara bresti á að nýju á morgun. Tæplega fimmþúsund kennararar voru á kjörskrá um miðlunartillögu sáttasemjara. Klukkan eitt í dag rann út frestur til að skila inn atkvæðum og þá höfðu 4617 kennarar skilað inn atkvæði sínu. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari segir úrslitin þýða að miðlunartillagan hafi fengið mjög eindregna og skýra andstöðu. Hann segist þurfa að ráðgast við samningsaðila áður en ákveðið verði hvert næsta skref sé og á von á því að boðað verði til fundar strax í kvöld. Gunnar Rafn Sigurbjörnssonm, formaður launanefndar sveitarfélaga, segir þetta þýða að samningsaðilar séu komnir aftur á byrjunarreit. Að sögn Gunnars mun nefndin fara fram á það við kennara að verkfallinu verði aflýst því aðstæðurnar í þjóðfélaginu séu það þungbærar að þær trufli gang eðlilegra viðræðna. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, segir þetta líklega mest afgerandi niðurstöðu kosninga innan raða stéttarinnar. Hann lítur á þetta sem yfirlýsingu félagsmanna um að það sem verið hafi á borðinu sé langt frá því sem nokkur geti sætt sig við. Þetta eru því skilaboð til forystunnar um að halda áfram með viðræðurnar. Eiríkur segir ekki mögulegt að fresta verkfalli án þess að fyrir liggi viðunandi samningstilboð. Verkfall mun því að öllu óbreyttu hefjast að nýju á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×