Innlent

Framtíðin í höndum Vinstri grænna?

Líklegt er talið að framtíð Þórólfs Árnasonar borgarstjóra ráðist á félagsfundi Vinstri grænna sem haldinn verður annað kvöld. Þórólfur fékk frest til þess að útskýra mál sitt fyrir borgarbúum og hefur hann gert það um helgina með ítarlegum viðtölum í sjónvarpi og dagblöðum. Viðbrögð við máli Þórólfs virðast ganga þvert á flokkslínur. Þannig hafa Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingar, og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslyndra, lýst þeirri skoðun sinni að Þórólfur eigi að segja af sér. Guðmundur Árni Stefánsson Samfylkingunni telur hins vegar að Þórólfur eigi að sitja áfram og fleiri hafa skotið hlífiskildi fyrir hann. Sjálfstæðismenn í borgarstjórn hafa ekki mikið tjáð sig. Björn Bjarnason sagði í sjónvarpsviðtali að sjálfur hefði hann sagt af sér við slíkar kringumstæður en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur aðeins sagt að Þórólfur verði að eiga það við samvisku sína. Stóra spurningin er hvað Vinstri grænir gera. Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar, hefur sagt að hann treysti Þórólfi ekki fullkomlega. Flokkurinn heldur félagsfund á þriðjudagskvöldið þar sem telja má víst að þetta mál verði til umræðu og stefna mótuð, þótt ekki verði endilega gefin út yfirlýsing eftir fundinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×