Erlent

Neyðarástandi lýst yfir

Bráðabirgðastjórnin í Írak lýsti í gær yfir 60 daga neyðarástandi í landinu. Í gærkvöld var ekki ljóst hvað þessi yfirlýsing þýddi í raun, en talið er líklegt að sett verði útgöngubann og enn meiri áhersla lögð á öryggisgæslu. Thaer Naqib, talsmaður bráðabirgðastjórnarinnar, segir að neyðarástandið gildi fyrir allt landið fyrir utan svæði Kúrda í norðurhluta landsins. Yfirlýsingin jafngildi því að herlög gildi í landinu. Ástæðan fyrir yfirlýsingunni er aukin sókn uppreisnarmanna en bráðabirgðastjórnin telur að þeir séu að reyna að koma í veg fyrir að kosningar geti farið fram í landinu eftir tvo mánuði. Á laugardaginn fórust 30 manns í átökum við borgina Samarra, en bandaríski herinn hafði nýlega lýst því yfir að hann hefði fulla stjórn á aðstæðum þar. Í gær voru 27 íraskir lögreglumenn myrtir. Uppreisnarmenn réðust inn á lögreglustöð í Anbar-héraði, afvopnuðu 21 lögreglumann og skutu þá síðan í höfuðið. Sex lögreglumenn voru myrtir á svipuðum slóðum í borginni Haqlaniya. Aukin sókn uppreisnarmanna er líka rakin til væntanlegrar árásar Bandaríkjahers inn í borgina Falluja. Meira en tíu þúsund bandarískir hermenn umkringja borgina. Bandarískar herþotur hafa gert loftárásir á ákveðin svæði hennar þar sem talið er að uppreisnarmenn haldi sig. Leiðtogar uppreisnarmanna í Falluja hafa boðið fjölmiðlum að koma inn í borgina tli að fylgjast með væntanlegri árás. Líkja þeir ástandinu við krossferð Bandaríkjahers gegn islamskri trú. Bandarískir hermenn segja að innrásin í Falluja verði harðasta orustan sem Bandaríkjaher hafi farið í síðan ráðist var inn í borgina Hue í Víetnam árið 1968. Þá létust 142 hermenn og þúsundir Víetnama.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×