Innlent

Thomas situr í stjórn Símans

Thomas Möller, fyrrverandi markaðsstjóri Olís, sem átti stóran þátt í verðsamráði olíufélaganna samkvæmt niðurstöðu samkeppnisráðs, situr nú í stjórn Símans og er stjórnarformaður Iceland Naturally. Geir H. Haarde fjármálaráðherra skipaði Thomas í stjórn Símans í mars á þessu ári þrátt fyrir að hann hafi vikið úr stjórninni hálfu ári fyrr vegna rannsóknar Samkeppnisstofnunar á samráði olíufélaganna og umfjöllunar í fjölmiðlum um aðild hans að málinu. Í starfi sínu tók Thomas meðal annars þátt í verðsamráði gegn Símanum. Thomas var skipaður formaður stjórnar Iceland Naturally í júní í fyrra af Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Iceland Naturally er samstarfsvettvangur ríkisins og fyrirtækja við að koma íslenskri vöru og þjónustu á framfæri í Bandaríkjunum. Flugleiðir eru meðal þátttakenda í samstarfinu. Fyrirtækið var eitt af þeim fyrirtækjum sem varð fyrir barðinu á verðsamráði olíufélaganna. Bergþór Ólason, aðstoðarmaður samgönguráðherra, segir að samningur um Iceland Naturally klárist um áramótin og það sé ekki búið að taka afstöðu til þess hvernig ný stjórn verði skipuð. Thomas hafi vikið úr stjórn Símans þegar málið kom upp í fyrra. Hann verði núna að taka ákvörðun um það sjálfur hvort hann sitji áfram í stjórnum á vegum hins opinbera. Ekki verði gripið til ráðstafana af hálfu ráðherrans. Bergþór segir að Thomas hafi vikið sæti í fyrra til að fyrirbyggja að það yrði órói í kringum störf hans í stjórn Símans. Aðspurður hvort sá órói sé ekki enn til staðar eftir að niðurstaða samkeppnisráðs liggur fyrir vísaði Bergþór á Thomas, hann yrði að svara því sjálfur. Hvorki náðist í Geir H. Haarde fjármálaráðherra né Thomas Möller í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×