Innlent

2 milljarða tap vegna verkfallsins

Þjóðarbúið hefur tapað að minnsta kosti tveimur milljörðum nú þegar vegna verkfalls grunnskólakennara. Verkfallið stóð í sex vikur og ef fram fer sem horfir hefst það á ný í vikunni. Mikil óánægja er meðal grunnskólakennara með miðlunartillögu ríkissáttasemjara og er talið fullvíst að hún verði felld í atkvæðagreiðslunni sem nú stendur yfir sem þýðir að verkfall hefst á nýjan leik í grunnskólum landsins á þriðjudag. Það er nokkuð flókið að reikna út þjóðhagslegt tap af slíku verkfalli. Ragnar Árnason, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, gerði þó tilraun til þess við upphaf verkfallsins að beiðni fréttastofu. Sveitarfélögin greiða grunnskólakennurum rúmlega fimmtán og hálfan milljarð í laun í ár. Það gerir 300 milljónir á viku eða 43 milljónir á hverjum degi. Ragnar segir að þjóðhagslegt tjón vegna verkfallsins sé fyrst og fremst að sérþjálfað vinnuafl 4.300 manna nýtist ekki og það tjón má meta upp á að minnsta kosti það sama og laun þeirra, eða 300 milljónir á viku. Það sé algjört lágmark því ofan á þessa tölu bætist að virðisauki vinnunnar tapast og hugsanlegt tjón foreldra og fyrirtækjanna sem þeir vinna hjá. Þá segir Ragnar að í verkföllum verði félagslegt og sálrænt uppnám sem meta má til þjóðhagslegs tjóns, enda snúist þjóðarhagur um mannlega velferð. Á sex vikna verkfalli grunnskólakennara hefur þjóðarbúið því að minnsta kosti tapað 1,8 milljörðum króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×