Innlent

Enn óvissa um Þórólf

Stuðningur við Þórólf Árnason borgarstjóra verður mældur að lokinni yfirreið hans í fjölmiðlum þar sem hann reynir að skýra sín mál. Framtíð hans í borgarstjórastólnum ræðst að hluta af þeirri niðurstöðu. Þórólfur mætti eins og boðað hafði verið í viðtal hjá Jóhönnu Vilhjálmsdóttur og Þórhalli Gunnarssyni í Íslandi í dag í gær. Þar svaraði hann ítrekuðum spurningum um hugsanlega afsögn samhliða því að símakönnun var framkvæmd. Þórólfur varð klökkur þegar niðurstaðan lá fyrir þar sem 65% þátttakenda sögðust vilja að hann héldi áfram sem borgarstjóri en 35% sögðust vilja að hann segði af sér.  Það er ljóst að Þórólfur nýtur nokkurar samúðar en það er óljóst hvort það dugi honum til framhaldslífs sem borgarstjóri. Á morgun verða opnuviðtöl við hann í blöðunum og fréttastofa hefur heimildir fyrir því að staða hans gagnvart borgarbúum verði könnuð í kjölfarið. Komi í ljós að Þórólfur njóti stuðnings meirihluta borgarbúa er krafa Vinstri grænna um að hann hverfi úr borgarstjórn orðin langsóttari. Vinstri grænir hafa hins vegar ekki sett það sem afarkost að hann hverfi úr embætti. Þeir hafa því enn svigrúm til að bakka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×