Menning

Satínsvartur draumur

Lárus Blöndal Benediktsson sjúkraliði ákvað að verðlauna sig á tímamótum í lífi sínu í sumar með satínsvörtum Toyta Yaris T Sport 2004. "Ég var að leita að sparneytnum og skemmtilegum bíl og þessi varð fyrir valinu þar sem hann er bæði flottur og eyðir litlu. T Sport þýðir að hann er með aðeins meiri þægindum og stærri vél." Lárusi finnst best við bílinn að hann er stór smábíll. "Það að hann eyðir svona litlu er algjört lykilatriði. Ég sá ekki fram á að olíufélögin yrðu hliðholl hinum almenna borgara svo þetta var ein leið til að snúa á þá. Þessi bíll eyðir um 5,7 lítrum á hundraði og jafnvel minna í utanbæjarakstri." Lárus segir kostina marga, meðal annars hvað sætin eru þægileg og aksturstölvan sniðug. "Maður situr hátt og hefur góða yfirsýn og sætin eru svokölluð körfusæti sem styðja vel við mjóbakið," segir sjúkraliðinn og finnst það að sjálfsögðu mjög mikilvægt. "Ég er mest á bílnum innanbæjar en þar sem ég er frá Blönduósi skrepp ég þangað af og til." Þetta er í fyrsta skipti sem Lárus á svona fínan bíl en hann segir að Toyota sé merkið sitt. "Fyrsti bíllinn minn var Toyota árgerð ´77. Hann er númerslaus inni í bílskúr hjá pabba sem á hann núna. Bíllinn lítur vel út, ekkert ryð í honum og stefnan er að koma honum aftur á götuna."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×