Innlent

Bara bensín - skilar litlu

Lítið sem ekkert hefur dregið úr smásölu á bensínstöðvum Esso, Olís og Skeljungs þrátt fyrir hvatningu til fólks um að kaupa ekki annað en bensín á stöðvunum og láta aðrar vörur vera. Slík hvatning hefur gengið manna á milli í tölvupósti síðustu daga og farið víða. Er hún viðbrögð við samráði olíufélaganna. Samkvæmt athugunum Fréttablaðsins virðist almenningur halda fast í venjur sínar og svo er að sjá að fáir hafi hlýtt kallinu um að kaupa bara bensín. Svör starfsfólks bensínstöðva voru flest á einn veg; hér er allt við það sama. Einstaka starfsmaður sagði þó að eitthvað hefði dregið úr sælgætissölunni og einn minntist á að sólgleraugnasalan hefði hrunið. Kenndi hann frekar tíðinni en hvatningunni um. Það kom raunar mörgum bensínafgreiðslumönnum á óvart hve lítil áhrif hvatningin hefur haft og sýnir það enn og aftur að Íslendingar eru latir við að mótmæla, þó þeir telji á sér brotið. Borið hefur á að svonefndir viðskiptavinir bensínstöðvanna séu ekki meiri vinir þeirra en svo að þeir hafi hreytt hnjóðsyrðum í starfsfólk og jafnvel kallað það ölllum illum nöfnum. Hefur það vitaskuld farið fyrir brjóstið á viðkomandi enda alsaklaust fólk á ferðinni. Það voru jú forstjórarnir og næstráðendur sem stóðu í samráðinu en ekki fólkið á dælunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×