Erlent

Hefjum tímabil vonar

"Við hefjum nú tímabil vonar," sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti þegar hann ávarpaði þúsundir stuðningsmanna sinna sem fögnuðu endurkjöri hans í Ronald Reagan-byggingunni í Washington. "Bandaríska þjóðin hefur mælt og ég er auðmjúkur frammi fyrir því trausti sem samlandar mínir hafa sýnt mér. Því trausti fylgir skylda til að þjóna öllum Bandaríkjamönnum," sagði Bush, sem beindi orðum sínum til þeirra sem kusu mótframbjóðanda hans, John Kerry. "Ég þarf á trausti ykkar og samstarfi að halda svo þjóð okkar megi verða sterkari og betri. Ég mun gera allt í mínu valdi til að ávinna mér traust ykkar," sagði Bush og bætti við: "Þegar við komum saman og vinnum saman eru engin takmörk fyrir því hvað Bandaríkin geta gert." Bush sagði helstu mál seinna kjörtímabils síns vera að bæta úrelt skattkerfi, ráðast í endurbætur á velferðarkerfinu og hafa málefni fjölskyldu og trúar í fyrirrúmi. Sigur Bush var stærri en búist var við. 59 milljónir Bandaríkjamanna, 51 prósent kjósenda, greiddu honum atkvæði sitt í kosningum sem einkenndust af óvenju mikilli kjörsókn. Hingað til hefur mikil kjörsókn helst verið talin gagnast demókrötum en því var öfugt farið í þetta skipti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×