Menning

Jakobsvegurinn hjólaður

Margir kófsvitna bara við tilhugsunina um einn spinning-tíma í ræktinni. Það er þó aðeins dropi í hafið fyrir hin fjögur fræknu: Kristinn Karl Dulaney, Ingibjörgu Richardsdóttur, Bjarna Helgason og Sigrúnu Harðardóttur. Þau lögðu af stað 27. maí í vor í pílagrímsferð þar sem þau hjóluðu tæplega þúsund kílómetra á Jakobsveginum svokallaða þvert yfir Norður-Spán. Ferðin tók mánuð en skildi mikið eftir sig.

"Ég hafði heyrt af þessari leið og hafði einsett mér að ganga hana. Ég leitaði að korti og upplýsingum en var svo gefin bókin Road to Santiago. Pílagrímaleiðin er náttúrlega mjög þekkt leið og margar bækur hafa verið skrifaðar um hana. Ég gluggaði einnig í bókina Á Jakobsvegi eftir Jón Björnsson þar sem farið er vel ofan í sögu leiðarinnar. Ég kynnti mér leiðina mjög vel og við Bjarni ákváðum að hjóla hana því við höfum verið að hjóla mjög mikið saman," segir Kristinn en Ingibjörg og Sigrún ákváðu seinna að skella sér með. "Við byrjuðum í spinning hjá Eyrúnu í Hreyfingu um áramótin eftir að við ákváðum að fara með. Okkur fannst þetta vera það mikið ævintýri að við gátum hreinlega ekki sleppt því," segir Sigrún.

Fjórmenningarnir hófu ferðalagið með því að fljúga til Stansted á Englandi og þaðan til Biarriz í Frakklandi. Þar eyddu þau nokkrum dögum, skoðuðu sig um og gerðu allt klárt fyrir ferðina. Síðan hjóluðu þau til St.-Jean-Pied-de-Port í Frakklandi og skráðu sig inn á leiðina ef svo má segja. Þar fengu þau ítarlegar upplýsingar um til dæmis gististaði og hjólreiðaviðgerðir á leiðinni og einnig svokallað "pílagrímavegabréf". Á hverjum stað sem þau stoppuðu á á leiðinni fengu þau stimpil í vegabréfið og á endanum, þegar komið var til Santiago de Compostela á Spáni, var farið yfir alla stimplana og fengu ferðalangarnir syndaaflausnarbréf fyrir vikið. "Hægt er að skrá sig í ferðina á fleiri en einum stað en St.-Jean-Pied-de-Port er einn af aðalstöðunum," segir Kristinn og bendir á að flestir gangi þessa leið.

Um áttatíu til hundrað þúsund manns alls staðar að úr heiminum ferðast um Jakobsveginn á hverju ári. Fjórmenningarnir mæla tvímælalaust með Norður-Spáni í sumarfríinu. "Það er allt öðruvísi á Norður-Spáni en á sólarströnd. Öll leiðin er gróðursæl og landslag stórbrotið. Veitingastaðir eru reknir af fjölskyldum og það er enginn McDonalds í sjónmáli. Umhverfið er miklu hreinna og menningin allt önnur. Það var helst að við þurftum að venjast sólinni og mikilvægt er að bera alltaf á sig sterka sólarvörn því sólin skín á mann allan daginn," segir Ingibjörg en hin fjögur fræknu fengu aldeilis ekki nóg af hjólaferðum í sumar. "Það er alltaf einhver ferð í bígerð. Við getum sagt sem svo að ég eigi hjólakort af Þýskalandi. Það er líka draumur að fara til Ítalíu, til dæmis til Toscana en það kemur allt í ljós," segir Bjarni að lokum.

Ferðin

Hverjir: Kristinn Karl Dulaney, Ingibjörg Richardsdóttir, Bjarni Helgason og Sigrún Harðardóttir.

Leið: Jakobsvegurinn frá St.-Jean-Pied-de-Port í Frakklandi og til Santiago de Compostela á Spáni.

Vegalengd: 953 kílómetrar.

Lengsti dagur: 110 kílómetrar.

Hve margir dagar á hjóli: Fimmtán dagar.

Verð: Hópurinn flaug alltaf með lággjaldaflugfélögum. Konurnar fengu ekkert að versla því ekkert mátti bætast við farangurinn en karlarnir drógu hann. Þau voru með tjöld með sér og gistu yfirleitt á tjaldsvæðum þannig að þetta var mun ódýrara en venjulegt sumarfrí. Þau tóku svo bílaleigubíl í Santiago og óku til Valladolid. Þaðan var svo flogið aftur til Stansted.

Föt:

Örninn reyndist fjórmenningunum vel og leiðbeindi um varahluti, fatnað og hjól. Fatnaður skiptir miklu máli og ekki er gott að vera í bómullarbolum. Best er að vera í fatnaði úr gerviefnum því þau eru einstaklega fljót að þorna.

Mataræði:

Fjórmenningarnir elduðu mat fyrri hluta ferðarinnar. Síðan skiptu þeir yfir í sérstakan pílagrímamatseðil á veitingahúsum en þar er hægt að fá þriggja rétta máltíð með borðvíni á sex til átta evrur. Jógúrt og múslí var borðað á morgnana og nesti sem útbúið var á morgnana á daginn. Mikið þarf að borða í svona ferðum og mikilvægt er að drekka nóg vatn í hitanum. Verðlaun dagsins voru á kvöldin þegar hópurinn fékk sér rauðvín og súkkulaði.

Æfing:

Hópurinn æfði um það bil þrisvar í viku fyrir ferðina. Einnig hjóluðu þau mikið til að venja rassinn við því rasssæri er bagalegt í svona ferð. Þau létu einnig bunka af dagblöðum í aftanívagna sem festir eru við hjólin til að venja sig við þungann af farangrinum í ferðinni.

 

Hörpuskelin - tákn Jakobsvegarins

Santiago de Compostela er einn af tveim vinsælustu pílagrímastöðunum í Evrópu. Hinn eru Róm sem hefur tvo lykla sem tákn. Tákn Jakobsvegarins er hörpuskelin. Jakob var einn af lærisveinum Krists og er verndardýrlingur Spánar. Margar sögur eru til af því af hverju hörpuskelin varð fyrir valinu sem tákn en ein útgáfan hljóðar svo að aðalsmaður nokkur ætlaði að gifta sig. Hann fór ríðandi á vesturströnd Spánar. Hesturinn fældist undir honum og hljóp í sjóinn. Aðdjúpt var og maðurinn ósyndur. Heilagur Jakob lyfti þá manni og hesti úr sjó og voru þeir alsettir hrúðukörlum og hörpuskeljum.

Bloggsíða fjórmenninganna: mundicamino.blogspot.com

Fyrir þá sem vilja vita meira um Jakobsveginn: mundicamino.com

Hjólreiðaferðir meðal annars um Jakobsveginn: http://www - math.science.unitn.it/Bike/

Kristinn afskaplega kátur með að hafa náð í þrettán hundruð metra hæð.
Fjórmenningarnir við Pílagrímastyttuna sem er tákn gönguleiðarinnar.
Fólk velur sér marga ferðamáta til að ferðast um leiðina og þessi valdi asna.
Hér er kort af leiðinni sem fjórmenningarnir hjóluðu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.