Innlent

Kennararnir mæta á morgun

Kennarar í Valhúsaskóla, sem í dag sendu nemendur skólans heim í vetrarfrí eftir að þeim var tilkynnt að ekki yrðu greidd laun til kennara í dag, munu mæta í skólann á morgun. Eftir að börnin höfðu verið send heim boðaði Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, skólastjóra og trúnaðarmenn kennara á sinn fund til að leysa málið. Niðurstaða fundarins var sú að kennarar skyldu fá fyrirframgreidd laun fyrir nóvembermánuð á morgun eða á miðvikudag. Trúnaðarmenn kennara samþykktu þessa tilhögun og hefst skólastarf því að nýju á morgun samkvæmt stundaskrá. Kennarar stóðu í þeirri trú að þeim yrði greidd yfirvinna fyrir vinnu sína í þessari viku þegar vetrarfrí hefði átt að vera samkvæmt skóladagatali. Þegar þeim var gert ljóst að ekki yrðu greidd laun í dag sendu þeir börnin heim í vetrarfrí. Blessunarlega hefur hins vegar nú náðst lausn í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×