Innlent

Laun kennara hækka um 16,5%

Miðlunartillaga ríkissáttasemara er á svipuðum nótum og innanhússtillagan sem hann lagði fram á föstudaginn fyrir viku síðan. Kostnaðarhækkun sveitarfélaganna vegna miðlunartillögunnar er rétt rúmlega 26 prósent en var tæplega 26 prósent samkvæmt innanhússtillögunni. Ef miðlunartillagan verður samþykkt mun kjarasamningurinn gilda til 31. maí árið 2008 nema annar hvor samningsaðilinn ákveði að segja honum upp miðað við árslok 2007. Almennar kauphækkanir eru samanlagt 16,5 prósent á samningstímanum og 15. nóvember verður greidd 130 þúsund króna eingreiðsla til kennara. Samkvæmt tillögunni verður kennsluskyldan minnkuð úr 28 klukkustundum á viku í 26 stundir. Kennarar geta hins vegar áfram haldið óbreyttri kennslu og fá þá greiddar tvær yfirvinnustundir á viku. Ef það er gert aukast tekjurnar á ársgrundvelli um 7,2 til 7,4 prósent. Laun 30 ára umsjónarkennara sem kennir 26 klukkustundir á viku verða 213 þúsund krónur á mánuði samkvæmt miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Ef hann kennir 28 klukkustundir á viku verða launin 229 þúsund á mánuði. Með tillögunni er bókun sem kveður á um að grunnskólum sé heimilt í tilraunaskyni að taka upp hliðstæð vinnutímaákvæði og gilda hjá öðrum háskólamenntuðum starfsmönnum. Samkvæmt ákvæðinu verður vinnutími kennara frá klukkan 8 til 17 og innan þeirra tímamarka er öll vinnuskylda kennara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×