Erlent

Flutti 12 fanga í laumi frá Írak

Bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefur flutt tólf fanga í laumi út úr Írak á síðustu sex mánuðum til yfirheyrslna. Talið er hugsanlegt að þar með sé hún að brjóta gegn Genfarsáttmálanum. Þetta kom fram í dagblaðinu Washington Post í Bandaríkjunum. Í mars undirritaði bandaríska dómsmálaráðuneytið skjal að beiðni CIA þar sem leyniþjónustunni var gefið leyfi til að yfirheyra fangana í skamman tíma í öðru landi. Þar með telur leyniþjónustan sig ekki vera að brjóta nein lög. Hefur hún hvorki látið Alþjóða Rauða krossinn né aðrar stofnanir vita af þessum yfirheyrslum sínum. Sérfræðingar í alþjóðlegum lögum hafa bent á að aðgerðir leyniþjónustunnar séu brot á 49. grein Genfarsáttmálans. Kveður hún á um verndun almenna borgara á meðan á stríðstíma og hernámi stendur. Í frétt Washington Post eru leiddar líkur að því að fangarnir hafi verið pyntaðir. Minnist blaðið í því samhengi skjals sem Lögfræðiráð Bandaríkjanna sendi frá sér fyrir tveimur árum. Þar var CIA og forseta Bandaríkjanna greint frá því að hægt væri að réttlæta pyntingar liðsmanna al-Kaída sem hefðu verið handsamaðir. Vakti málið mikla hneykslan um allan heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×