Innlent

Ekki verið rætt um lög

Forsætisráðherra hefur kallað til sín deilendur í kennaradeilunni á mánudaginn. Hann segir að viðræðuslitin í gær séu mikil vonbrigði. Ekki hafi þó verið rætt um að setja lög á verkfallið. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segist hafa verið í sambandi við Ríkissáttasemjara síðustu daga og orðið mjög bjartsýnn í gær á að deilan væri að leysast. Sáttasemjari hafi verið tilbúinn með miðlunartillögu sem aðilar hafi tekið tiltölulega vel í áður en slitnaði upp úr. Halldór kveðst hafa haft samband við deiluaðila í morgun og boðað þá á sinn fund á mánudaginn þar sem farið verði yfir hvað fór úrskeiðis. Halldór segir alveg skýrt að ríkissjóður geti ekki veitt fjármagn í málið sérstaklega vegna deilunnar, enda hafi sveitarfélögin ekki farið fram á það. Spurður hvort lagasetning komi þá til greina segir hann að það hafi enn ekki verið rætt. Hann telur þó rétt að ríkisstjórnin kynni sér málið eins og nú sé búið að ákveða því það sé mjög alvarlegt og varði alla landsmenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×