Innlent

Vilja hærri skatta á áfengi

Hækka þarf skatta á áfengi í því markmiði að draga úr neyslu þess. Þetta er sameiginleg niðurstaða heilbrigðis- og félagsmálaráðherra á Norðurlöndum, eftir að hafa fjallað um áfengismál á sérstökum aukafundi í Kaupmannahöfn. Fundinum lauk í gær. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra stýrði fundinum, sem boðað hafði verið til vegna tilmæla forsætisráðherra Norðurlandanna. "Við náðum sameiginlegri niðurstöðu, sem er mjög mikilvægt," sagði heilbrigðisráðherra. "Ályktunin er sú að tala einni röddu hjá alþjóðavettvangi, hjá Evrópusambandinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni um að áfengi væri ekki eins og hver önnur vara, heldur vara sem hefði áhrif á heilbrigði þjóða og félagslegar aðstæður í löndunum. Þá þurfi að auka skattlagningu á áfengi. Um það voru allir ráðherrarnir sammála sem almennt markmið. Menn nefndu um allt að helming, en engin ákvörðun var tekin um stærðir í þeim efnum." Heilbrigðisráðherra sagði, að ráðherrar Norðurlandanna myndu skila skýrslum með sameiginlegum markmiðum fundarins til forsætisráðherra aðildarlandanna, sem myndu vinna áfram með tilmæli fundarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×