Innlent

Vildu fimmfalt hærri en hæstu sekt

Lögmenn stóru olíufélaganna munu tjá sig munnlega fyrir Samkeppnisráði á mánudaginn. Samkeppnisstofnun hóf rannsókn á meintu samráði olíufélaganna í lok árs 2001. Í janúar bauð Samkeppnisstofnun olíufélögunum þremur að binda endi á rannsóknina með greiðslu sekta er numu alls um 1,8 milljörðum króna. Með afsláttum vegna sýndrar samvinnu voru sektirnar á bilinu 300-480 milljónir á hvert félag. Olíufélögin höfnuðu því boði. Að sögn Þórunnar Guðmundsdóttur lögmanns sýnir reynslan að undantekningarlaust lækki sektir Samkeppnisstofnunar umtalsvert við áframhaldandi meðferð málsins. Hún bendir á að í grænmetismálinu svokallaða, er Sölufélagið, Ágæti og Mata voru dæmd fyrir ólöglegt samráð lækkaði hæstiréttur sektir Samkeppnisráðs um allt að 85 prósent. Voru sektirnar þær hæstu sem dæmdar hafa verið á Íslandi og numu þær um einu prósenti af veltu. Hæsta sekt sem dæmd hefur verið vegna sambærilegs brots á Norðurlöndunum nemur um 2,4 prósent af veltu. Algengt er að sektir á hinum Norðurlöndunum og í Evrópu nemi um einu prósenti af veltu. Ársvelta olíufélaganna er á bilinu 12-16 milljarðar króna og nam sekt Samkeppnisstofnunar því um 5 prósentum af ársveltu. Sektin er Samkeppnisráð bauð olíufélögunum að greiða er því fimmfalt hærri en hæsta sekt sem dæmd hefur verið í sambærilegu máli á Íslandi. Ef mál olíufélaganna fer fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og áfram til dómstóla og niðurstaða þeirra verður í samræmi við dóminn í grænmetismálinu, má því gera ráð fyrir því að sektir olíufélaganna verði á bilinu 120-160 milljónir. Rannsókn ríkislögreglustjóra á hugsanlegum refsiþætti stjórnenda olíufélaganna stendur enn yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×