Menning

Flensan ekki komin

Byrjað var um síðustu mánaðamót að bólusetja fólk gegn inflúensu hér á landi og eru þær aðgerðir í fullum gangi. Enda þótt fréttir berist um hörgul á bóluefni í Bandaríkjunum og víðar, vegna mistaka í framleiðslu þess hjá stóru lyfjafyrirtæki í Bretlandi, mun skorts ekki gæta hér á landi. "Við erum með nægar birgðir handa öllum sem þess óska því við erum ekki í viðskiptum við þetta breska fyrirtæki," segir Haraldur Briem sóttvarnarlæknir. Hann segir flensu ekki hafa orðið vart hér á landi á þessu hausti en aðeins hafi hún bankað á dyr í Noregi og Svíþjóð í einu og einu tilfelli. Hann telur þó ekki að hún verði fyrr á ferðinni hér en venjulega. "Það tekur flensu alltaf tíma að vinna sér land og yfirleitt er það ekki fyrr en upp úr áramótum sem hún verður að faraldri," segir hann. Flensan á yfirleitt uppruna sinn í Asíu þar sem mannfjöldinn er mestur. Hún fer um suðurhvel jarðar þegar haustið er þar og lætur svo á sér kræla á norðurhvelinu þegar kólna tekur í veðri. Í millitíðinni hefur lyfjaframleiðendum tekist að greina stofnana og búa til bóluefni gegn henni. "Sú sem nú er á ferðinni er flensa af hefðbundnum A og B stofnum og svo eru alltaf sérstakir undirflokkar því hún breytir sér alltaf frá ári til árs," segir sóttvarnalæknirinn. Haraldur segir ýmsa atvinnurekendur panta bóluefni handa öllu sínu starfsfólki en annars séu það vissir hópar sem ráðlagt sé að láta sprauta sig. Þótt fólk sé bólusett þýði það þó ekki algera vörn gegn flensu. "Vörnin er svona 60-90% og því fær fólk mun vægari einkenni en ella ef það lætur bólusetja sig," segir hann og spurningu um hvort brögð séu að því að fólk veikist af sprautunni svarar hann svo: "Fólk getur fengið smá hita og örlítil eymsli á sprautustaðnum. En það er allt mjög vægt og á ekki að trufla neinn." Ráðlagt er að bólusetja: Alla eldri en 60 ára Börn (eldri en 6 mánaða) og fullorðna... *með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma (þar á meðal astma). *sem eru ónæmisbældir *með langvinna efnaskiptasjúkdóma (þar á meðal sykursýki). *börn og unglinga sem taka aspírin að staðaldri (vegna hættu á Reye heilkenni). *Einstaklinga sem sýkt geta aðra sem eru í hættu að fá alvarlega inflúensusýkingu, það er: *starfsfólk á sjúkrahúsum sem annast sjúklinga. *starfsfólk á elli- og hjúkrunarheimilum. *heimilisfólk þar sem áhættuhópar dvelja.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.