Innlent

Lá við stórslysi á Laugarvatni

Við lá að ölvaður ökumaður ylli stórslysi á Laugarvatni í nótt með vítaverðum akstri. Lögregla hafði skömmu eftir miðnætti stöðvað bíl vegna vanbúins ljósabúnaðar og hugðist ökumaður lagfæra ljósin á staðnum. Í sömu mund og hann var að eiga við ljósin bar að annan bíl og þótti lögreglumönnum aksturslag þess grunsamlegt. Þegar sá ökumaður varð lögreglunnar var sveigði hann skyndilega yfir á annan vegarhelming og stefndi þá á stúlku sem þar stóð. Lögreglumanni tókst hins vegar að hrinda stúlkunni af veginum til að hún yrði ekki fyrir bílnum. Ekki tók þá betra við því ölvaði ökumaðuirnn rakst þá á hinn bílinn, sem var kyrrstæður, og klemmdist ökumaðurinn sem var að laga ljósabúnaðinn á milli. Sá slapp hins vegar furðu vel. Sá ölvaði lét þetta ekki stöðva sig heldur stakk af frá vettvangi. Lögregla hóf eftirför og náði að stöðva hinn hættulega ökumann skammt utan Laugarvatns. Hann er um tvítugt og reyndist verulega ölvaður og gisti fangageymslu lögreglunnar á Selfossi í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×