Menning

Sætar kartöflur

Sætar kartöflur eru upprunnar í Suður-Ameríku og er getið í perúvískum heimildum frá 750 fyrir Krist. Þær eru ólíkar venjulegum kartöflum í útliti og minna meira á ofvaxnar brúnar gulrætur en nokkuð annað. En látið útlitið ekki blekkja ykkur því sætar kartöflur eru einstaklega bragðgóðar og næringarríkar og innihalda færri kolvetni en venjulegar kartöflur. Svo eru þær fullar af trefjum og bætiefnum, einkum þó A og C vítamínum. Bandaríkjamenn borða mikið af þessum gómsæta rótarávexti og geta til dæmis ekki haldið Þakkargjörðarhátíðina án þess að sætar kartöflur komi þar við sögu. Hér eru nokkur holl ráð við kaup, geymslu og neyslu á sætum kartöflum. -Kaupið þykkar og þéttar kartöflur sem eru lausar við bletti eða önnur merki um ofþroska. -Geymið sætar kartöflur á svölum, dimmum og þurrum stað en varist að geyma þær í ísskáp þar sem kuldinn gæti skemmt þær. -Neytið þeirra innan tveggja vikna frá innkaupum. -Hreinsið sætar kartöflur vel og skrúbbið fyrir neyslu. -Hægt er að borða sætar kartöflur soðnar eða í mús eins og venjulegar kartöflur en einnig er gott að rista þær og baka í ofni. Svo er líka gott að baða þær í hunangi, kanil og engifer og borða þær sem eftirrétt.   Sætar kartöflur með ristuðum fennel og tarragon 2 sætar kartöflur, afhýddar 1 fennelstilkur 1 matskeið fínt saxað tarragon 1 matskeið rauðvínsedik Ólífuolía salt og pipar Uppskriftin nægir fyrir tvo Hitið ofninn í 200 °C. Skerið fennelinn í litla bita og steikið í olíunni og kryddið með salti og pipar. Ristið fennelinn síðan á bökunarplötu inni í ofni í um 20 mínútur þar til hann tekur lit og ilmar vel. Takið fennelinn þá út. Skerið sætu kartöflurnar í teninga og ristið í ofninum í 40-50 mínútur eða þangað til teningarnir eru orðnir mjúkir. Blandið svo saman sætu kartöflunum, fennelnum, edikinu og fersku tarragoni og bjóðið sem óvenjulegt meðlæti. Sætar sætar kartöflur 1 kíló sætar kartöflur, flysjaðar og rifnar 1/3 bolli púðursykur 1/4 bolli bráðið smjör 1/4 bolli kókosmjöl 1/4 bolli ristaðar, brytjaðar pecanhnetur 1/4 teskeið kanill 1/4 teskeið kókosmjólk 1/4 teskeið vanilludropar Setjið saman í pott kartöflurnar, sykur, smjör, kókosmjöl, hnetur og kanil. Setjið þétt lok og látið malla við vægan hita í 6-8 klukkustundir. Bætið svo í kókosmjólk og vanilludropum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×