Erlent

Tugir þáðu mútur Íraka

Nokkur ríki og fjöldi embættismanna högnuðust á því að láta Íraka komast upp með að selja meiri olíu en þeim var heimilt samkvæmt viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna. Féð sem Írakar fengu með þessu hætti notuðu þeir meðal annars til að kaupa búnað til vopnaþróunar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu bandarísku vopnaeftirlitssveitanna í Írak. Charles Dulfer, yfirmaður vopnaeftirlitssveitanna, ályktar að ríkisstjórn Saddams Husseins hafi grætt andvirði um 800 milljarða króna með ólöglegri olíusölu á árunum 1990 til 2003. Hluta segir hann hafa farið í að borga embættismönnum mútur fyrir að láta þetta viðgangast. Meðal þeirra sem nefndir eru til sögunnar er Benon Sevan, fyrrum yfirmaður áætlunar Sameinuðu þjóðanna sem sett var á fót til að heimila Írökum olíusölu gegn því að tekjur af henni færu í að kaupa lyf og matvæli. Tugir til viðbótar eru sakaðir um að þiggja mútur, flestir kínverskir, rússneskir og franskir embættismenn. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna neituðu að tjá sig um þetta og vísuðu til þess að rannsókn fer fram innan samtakanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×