Erlent

Munu hlusta á mannræningja

Talsmaður bresku ríkisstjórnarinnar segir að stjórnvöld séu viljug til að hlusta á kröfur mannræningja ef þeir snúa sér beint til þeirra, en að útilokað sé að greiða lausnargjald fyrir gísla líkt og talið er að ítölsk stjórnvöld hafi gert fyrir tvær ítalskar konur sem sleppt var úr haldi mannræningja í fyrradag. Sjónvarpsstöðin Al Jazeera sendi í gær nýtt myndband með breska gíslinum Ken Bigley, sem verið hefur í haldi mannræningja í tvær vikur. Þar sagði hann Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ljúga þegar hann segði að verið væri að semja um lausn Bigleys. Bigley sagði að Blair væri sama um sig og að líf hans væri einskis metið. Þetta myndband virðist hafa mýkt afstöðu Blairs opinberlega. Hann sagði í kjölfarið að ef mannræningjarnir settu sig í samband við stjórnvöld þá myndu þau svara mannræningjunum. Á meðan þeir geri það ekki sé fátt sem stjórnvöld geti gert. Jack Straw utanríkisráðherra segir hins vegar að útilokað sé með öllu að stjórnvöld greiði hryðjuverkamönnum lausnargjald í skiptum fyrir gísla þeirra. Myndin er af Ken Bigley á myndbandsupptöku sem mannræningjar hans gerðu opinbera í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×