Erlent

Óvíst um afdrif Bigleys

Misvísandi fréttir berast um afdrif Kens Bigleys, breska gíslsins sem situr í haldi mannræningja í Írak. Bandaríkjaher gerði í morgun stórsókn á Falluja í enn einni tilrauninni til að uppræta hryðjuverkahóp Al-Zarqawis, sem er öfgahópurinn sem rændi Bigley og reyndar mörgum fleirum.  Fréttir þess efnis að búið sé að taka Bigley af lífi birtust á íslamskri heimasíðu í nótt en ekki hefur verið unnt að sannreyna þá fullyrðingu. Sama heimasíða hefur að undanförnu farið með fleipur um afdrif annarra gísla í Írak og breska utanríkisráðuneytið segist ekki taka þessa fullyrðingu trúanlega, að svo komnu máli. Á meðan heldur fjölskylda Bigleys áfram að vinna að lausn hans. Dreifirit var borið út í Bagdad í dag þar sem fólk var hvatt til að hafa samband við fjölskylduna ef það hefði einhverjar upplýsingar um Bigley og tveir háttsettir menn í Múslimaráði Bretlands eru komnir til Íraks til að reyna að vinna að lausn hans. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, hefur haldið sig til hlés í þessu máli en komst ekki hjá því að svara spurningum í dag þegar hann mætti á ráðstefnu Verkamannaflokksins. Hann sagði stjórnina hafa verið í sambandi við Bigley-fjölskylduna og segir ótrúlegt hve mikilli stillingu hún hafi haldið síðustu daga. Blair sagði yfirvöld munu halda áfram að gera allt sem þau gætu gert til að leysa Bigley úr haldi.  Það er hryðjuverkahópur Abu Musab al-Zarqawi sem rændi Bigley og Bandaríkjamönnunum tveimur sem teknir voru af lífi fyrr í vikunni. Öfgamenn hliðhollir honum eru með borgina Falluja á sínu valdi og í morgun hóf bandaríski herinn enn eina sprengjuárásina á vígi Al-Zarqawis í tilraun til að ná undirtökum í borginni. Læknar á sjúkrahúsi í Falluja segja að að minnsta kosti sjö óbreyttir borgarar hafi fallið í árásinni, þar á meðal konur og börn. Myndin er af syni og bræðrum Kens Bigleys.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×