Innlent

Halldór forsætisráðherra

Halldór Ásgrímsson tekur við embætti forsætisráðherra í dag og Davíð Oddsson verður utanríkisráðherra. Halldór hefur starfað lengst allra utanríkisráðherra og Davíð lengst allra forsætisráðherra og því eru tímamót í íslenskum stjórnmálum. Halldór sagði í viðtali við Fréttablaðið að undirbúningur að hugsanlegum aðildarviðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið væri þegar hafinn þótt ekki væri enn víst hvenær eða yfirleitt hvort af þeim yrði. "Það liggur fyrir að minn flokkur hefur lagt í þetta mikla vinnu og mikla umræðu. Við verðum að hafa burði til að takast á við þetta, ef við getum það ekki getum við ekki tekist á við framtíðina." Hann segir að það sé staðreynd að Íslendingar séu mjög háðir samskiptum við ESB. Sambandið sé jafnframt ávallt að breytast. "Það er staðreynd að önnur ríki eru að huga að aðild og Íslendingar þurfa að fylgjast vel með. Það er mjög mikilvægt að við séum sammála um ákveðin grundvallaratriði í þessum efnum ef við eigum einhvern tímann að vænta þess að geta tekist á við þetta með málefnalegum hætti," segir Halldór. "Ég vil leggja á það áherslu í sambandi við Evrópusambandið að þetta eru ekki léttvægir hlutir. Þetta eru grundvallaratriði íslensks þjóðfélags." Hann segir að það liggi fyrir að ríkisstjórnin hafi ákveðna stefnu varðandi ESB. Hann vill þó ekki segja að skoðanaágreiningur sé um málið milli ríkisstjórnarflokkanna. "Það er áherslumunur. Ég veit ekki um neinn sem útilokar að þetta geti gerst. Menn hafa mismunandi sýn á hvenær við gætum staðið frammi fyrir þessari ákvörðun, eftir hvað mörg ár það yrði." Hér má lesa ítarlegra viðtal við forsætisráðherra



Fleiri fréttir

Sjá meira


×