Innlent

Jafnaðarmenn harma hvarf Sivjar

Ungir jafnaðarmenn harma niðurstöðu þingflokks Framsóknarflokks um að fækka konum í ríkisstjórn að því er segir í ályktun þeirra sem samþykkt var á landsþingi Ungra jafnaðarmanna í Hveragerði um helgina og send var fjölmiðlum áðan. Eins og kunnugt er var samþykkt á fundi þingflokks Framsóknarmanna í síðustu viku að víkja Siv Friðleifsdóttur úr ráðherraliði flokksins þegar Sjálfstæðisflokkurinn tekur við umhverfisráðuneytinu þann 15. september næstkomandi. Ungir jafnaðarmenn telja þessa þróun vera áhyggjuefni. Þeir segja nauðsynlegt að líta á jafnréttismál í víðu samhengi og leggja áherslu á að um sé að ræða þverpólítískan málaflokk sem snerti grunnþætti samfélagsins. Í tilkynningunni segir að að sjálfsögðu beri að skipa og ráða hæfasta einstaklinginn í viðkomandi starf en ef litið sé yfir svið stjórnmála eða viðskipta sé augljóst að konur eru látnar líða fyrir kynferði sitt. Hið óeðlilega lága hlutfall kvenna í stjórnmálum og í viðskiptalífinu er vitnisburður um að gengið sé framhjá hæfum konum. Ef hæfni réði framgangi í stjórnmálum væri kynjahlutfallið mun jafnara en það er nú. Ungir jafnaðarmenn telja framferði þingflokks Framsóknarflokksins einnig forkastanlegt í ljósi kosningabaráttu síðastliðins vors þar sem sá flokkur lagði áherslu á jafnréttismál í sínum málflutningi. Framsóknarkonur hafi meðal annars skipað efstu sæti í helmingi kjördæmanna. Þetta hafi hins vegar ekki skilað sér í ríkisstjórn og það sé augljóst að Framsóknarflokkurinn láti ekki verkin tala þegar komi að jafnréttismálum, heldur haldi hann áfram að slá ryki í augu kjósenda rétt fyrir kosningar. Ungir jafnaðarmenn vilja að lokum minna á kosningaloforð Samfylkingarinnar um að jafnréttismál beri að heyra undir forsætisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×