Menning

Sælkeraverslun í Iðuhúsinu

Í nýja Iðuhúsinu í Lækjargötu hafa þær Kristín Ásgeirssdóttir og Guðbjörg Halldórsdóttir uppfyllt drauma sína og opnað sælkerabúðina Yndisauka. Verslunin er full af flestu því sem sannur sælkeri kann að þarfnast en maturinn er með spænsku, frönsku og ítölsku yfirbragði. Ostar og skinkur af bestu gerð, hágæða olíur og edik, frosið sjávarfang, framandi fuglar og sniglar eru meðal þess sem stöllurnar selja en einnig bjóða þær upp á veitingar fyrir veislur og mannfagnaði. Arndís, eigandi bókabúðarinnar á neðri hæð hússins var að skipuleggja starfsemi í Iðuhúsinu og bar hugmyndina að sælkeraverslun undir Guðbjörgu. Hún var meira en til og skömmu síðar var Kristín fengin í liðið og málinu hrint í framkvæmd. Stelpurnar hafa ólíkan bakgrunn, Kristín er smurbrauðsgerðarkona og kokkur en Guðbjörg einkaþjálfari og nuddari. Þær eiga það sameiginlegt að hafa óbilandi ástríðu á mat og eru sannfærðar um að hér á landi vantar meira úrval af sérvöru fyrir sælkerana. "Í útlöndum fer fólk til slátrarans til að kaupa kjöt og í ostabúðina að kaupa osta. Hér fer fólk í stórmarkaði því þar fæst allt. Þeir sem framleiða t.d. hágæða ólífuolíu vilja ekki selja vöruna sína í slíkum búðum því þar er ekki rétta þjónustan fyrir hendi. Kúnninn kaupir ekki litla flösku af ólífuolíu á tvö þúsund krónur ef hann hefur ekki hugmynd um hvers vegna hún er svona dýr," segir Kristín og bendir á að í Yndisauka fáist gott úrval af slíku hágæða hráefni. "Við erum einnig með tilbúinn mat í hollari kantinum, súpu, salöt og brauð auk þess sem við framleiðum nokkuð af vörum á staðnum svo sem hummus, pestó og chutney. Svo þykir okkur voðalega gaman þegar fólk hringir í okkur með eitthvað sérstakt í huga eða þegar það vill gleðja einhvern og biður okkur um að tína eitthvað til. Við aðstoðum fólk í hugmyndavinnu og við framsetningu og fleira." Ferskur túnfiskur verður einnig fáanlegur hjá Yndisauka fyrir helgarnar en verslunin er opin fram á kvöld alla daga. Blaðamanni var gefið að smakka á bestu tómötum í heimi úr kæliborði verslunarinnar, hálfsólþurrkuðum og marineruðum. Algjört lostæti.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.