Menning

Eyðsluflipp hjá Sævari Karli

"Eftir að ég eignaðist barnið mitt fór ég í Sævar Karl, þakka þér kærlega fyrir, og keypti mér kjól, jakka, buxur, peysu og pils og allt á raðgreiðslum. Ég held ég hafi snappað eftir fæðinguna eða eitthvað, ég var svo mikil pæja og hetja og þurfti svo mikil verðlaun," segir Bryndís Ásmundsdóttir, söngkona og stuðbolti með Búðarbandinu, aðspurð um verstu kaup sem hún hefur gert. "Svo hef ég ekki getað notað neitt af þessu nema gallajakkann, sem ég flokka reyndar undir bestu kaup." Bryndís vill taka það skýrt fram að ekki sé við verslun Sævars Karls að sakast í þessu efni. "Fötin þar eru æðisleg, það vantar ekki, þetta var bara ég persónulega sem var á eyðslufylleríi. Kjóllinn til dæmis klæddi mig ekki og var úr þannig efni að ég fékk sár undir handarkrikana. Ég var eins og fáviti í gallabuxunum og pilsið, sem er rosalega krúttlegt, er bara engan veginn ég. En ég hef varla farið úr gallajakkanum í fimm ár." Bryndís er búin að leggja kortinu og kaupir ekki lengur út á krít. "Ég reyni að vera meðvituð í peningamálum og er alltaf að bæta mig. Kærastinn hefur líka mjög góð áhrif á mig, hann er svo ábyrgur," segir Bryndís og hlær. "En ég versla samt ekkert endilega á tilboðum og fæ grænar bólur þegar ég hugsa um útsölur. Ég er enginn gramsari," segir hún og vill endilega að það komi fram að þau í Búðarbandinu séu ferlega meðvituð og alltaf að spara peninga jafnframt því að spila frábæra tónlist á Prikinu. edda@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.