Viðskipti erlent

Stóru ríkin sleppi ekki

Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að ólöglegt hafi verið að hlífa ríkisstjórnum Frakklands og Þýskalands við sektum vegna brota á Stöðugleikasáttmálanum um fjármál aðildarríkja evrunnar. Stöðugleikasáttmálinn gerir ákveðnar kröfur um fjármálastjórn ríkjanna sem eru aðilar að evrunni. Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins tóku í nóvember þá ákvörðun að beita ekki heimildum til að sekta ríkisstjórnir Frakklands og Þýskalands þótt fjárlagahalli þar hafi verið umfram viðmiðanir þrjú ár í röð. Dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að ákvörðunin hafi verið ólögmæt en leggur ekki til leiðir til úrlausnar málsins. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fagnar úrskurðinum og segir Romano Prodi, formaður framkvæmdastjórnarinnar, að fylgispekt við almennar reglur sé besta leiðin til að tryggja stöðugleika í álfunni. Talsmenn þýska fjármálaráðuneytisins fagna einnig niðurstöðunni. Þeir segja að í úrskurðinum komi fram að nauðsynlegt sé að gefa svigrúm við framkvæmd Stöðugleikasáttmálans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×