Menning

Gott að karlmenn gráti

Á nýafstöðnu Evrópumóti í fótbolta mátti sjá margan fílefldan karlmanninn hágráta í myndavélarnar. Þeir þóttu þó ekki minna karlmannlegir fyrir það, en sálfræðingar í Bretlandi segja að fótboltinn sé að verða eini vettvangurinn fyrir vestræna nútímakarlmenn til að fá útrás fyrir tárin sem "sannir karlmenn fella helst ekki og allra síst í fjölmenni". Bernard Capp, prófessor í sálfræði við Warwick-háskólann Bretlandi, segir að þrátt fyrir að karlmennskuímyndin hafi breyst á síðustu áratugum eigi karlmenn enn erfitt með að gráta. Þeir byrgi tilfinningar sínar inni, sem sé afar slæmt fyrir heilsu þeirra.. Capp segir að í gegnum söguna hafi karlmenn mátt gráta undir ákveðnum kringumstæðum. Aðalsmenn í Bretlandi máttu til dæmis gráta "á réttum augnablikum" meðan lágstéttin gat ekki leyft sér það undir neinum kringumstæðum. Sálfræðingar velta því fyrir sér hvort fótboltinn sé að verða að nýjum "trúarbrögðum", og vísar í "járnstakka" Cromwells, sem þrátt fyrir að vera karlmennskan holdi klæddir leyfðu sér að gráta á bænasamkomum, Því fleiri tækifæri sem karlmenn fái til að gráta því betra fyrir heilsu þeirra. Copp hvetur því karlmenn til að fá útrás fyrir geðshræringu sína í fótboltanum og gráta eins og þeir lifandi geta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×