Innlent

Stuðningur við stjórnina dalar enn

Ríkisstjórn Íslands nýtur stuðnings 34,5 prósent kjósenda samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins en 65,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku eru andvígir stjórninni. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur ekki mælst minni á kjörtímabilinu ef frá er talin könnun Fréttablaðsins frá því í maí þegar 30,9 prósent sögðust styðja stjórnina. Í tveim könnunum blaðsins í júní naut stjórnin stuðnings um 40 prósent kjósenda og hefur stuðningur við stjórnina því dalað nokkuð frá síðustu könnun. Framan af vetri var stuðningur við ríkisstjórnina álíka mikill og andstaðan við hana samkvæmt könnunum Fréttablaðsins. Í könnun blaðsins frá í mars sögðust 51,5 prósent styðja stjórnina en 48,5 voru henni andvígir. Mánuði síðar, í könnun sem gerð var eftir að fjölmiðlafrumvarp forsætisráðherra var kynnt, hafði stuðningur við stjórnina fallið niður í 39 prósent og í könnun sem gerð var seint í maí náði stuðningur við ríkisstjórnina lágmarki þegar 30,9 prósent voru henni fylgjandi. Athyglisvert er að bera stuðning við ríkisstjórnina nú saman við könnun sem Gallup gerði í júní árið 2000 en þá var einnig rúmlega ár liðið frá þingkosningum. Þá sögðust 63 prósent þeirra sem afstöðu tóku styðja stjórnina en einungis 37 prósent voru henni andvígir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×