Menning

Grilluð pizza með kartöflum

Hér er sumarleg pizza sem gaman er að henda á grillið í góðra vina hópi. Helstu hráefnin til pizzugerðar eru ódýr og þess vegna er tilvalið að krydda pizzuna með munaðarvöru eins og furuhnetum og frönskum geitaosti. Einfaldasta pizzudeig í heimi 4 bollar hveiti 25 kr. 1/2 poki þurrger 13 kr. 1 og 1/2 bolli volgt vatn 1 tsk. salt Álegg 4 soðnar kartöflur (skornar í sneiðar) 4 hvítlauksgeirar (sneiddir) 2 lúkufylli af ferskri basiliku 150 kr. 4 msk góð pastasósa úr krukku 2 msk ristaðar furuhnetur 100 kr. 4-5 jarðarber (sneidd) 100 kr. 150 gr rifinn ostur 150 kr. 50 gr franskur geitaostur 100 kr. 1 lúkufylli af klettasalati og nokkrar greinar af fersku oregano 150 kr. Byrjið á deiginu: Látið renna úr heitavatnskrananum þar til vatnið er farið að hitna (ca 40 gráður). Látið þá um 1 og 1/2 bolla af volgu vatninu í stóra skál. Leysið upp 1/2 pakka af þurrgeri í vatninu og bætið hveiti saman við þar til úr verður þykkur grautur. Setjið stykki yfir skálina og látið hefast í um 20 mín (lengri hefun er í mjög góðu lagi en 20 mín duga). Þegar deigið hefur hefast, bætið þá hveiti út í skálina ásamt salti. Hnoðið deigið í skálinni þar til það myndar fallega kúlu og klístrast ekki lengur við hendurnar. Smyrjið álpappírsörk með olíu, stráið örlitlu hveiti yfir og fletjið deigið út á álpappírnum. Álegg: Steikið kartöflusneiðarnar ásamt hvítlauk og basiliku í ólífuolíu á pönnu þar til kartöflurnar hafa brúnast nokkuð. Tínið þá hvítlaukinn frá. Smyrjið pastasósu á pizzubotninn og setjið kartöflusneiðar og basiliku ásamt olíunni af pönnunni þar ofaná. Dreifið jarðaberjasneiðum og furuhnetum þvínæst yfir og stráið að lokum rifnum osti og muldum geitaosti yfir. Látið grillið hitna vel, en minnkið logann þegar pizzan er sett á álpappírnum á grillið. Grillið í lokuðu grilli í 10 til 15 mín, eða þar til osturinn hefur bráðnað. Dreifið klettasalati og fersku oregano yfir pizzuna áður en hún er borin fram. Kostnaður um 900 kr





Fleiri fréttir

Sjá meira


×