Menning

Heitasti tíminn skellur á

Flestum þykir dásamlegt að sitja úti í góðu veðri og njóta steikjandi sólar og hita. Sólin veitir okkur andlega vellíðan og gerir okkur í leiðinni brún og sælleg. Um þessar mundir er að renna upp heitasti tími ársins þegar geislar hennar eru hvað sterkastir og því er mjög nauðsynlegt fyrir alla, jafnt börn og fullorðna, að verja sig fyrir þeim skaðlegu geislum sem af sólinni kemur. "Það er nauðsynlegt fyrir alla að verja sig fyrir útfjólublárri geislun, hvort sem um er að ræða geislun frá ljósabekkjum eða frá sólinni sjálfri. Það er hægt að gera á tvo vegu, annars vegar með því að bera á sig sólarvörn eða einfaldlega með því að klæða hana af sér og þá með léttum klæðnaði ef mjög heitt er í veðri," segir Bolli Bjarnason húðsjúkdómalæknir. Hann telur Íslendinga ekki nægjanlega varkára þegar kemur að sólböðum og ítrekar að alla útfjólubláa geislun sé nauðsynlegt að blokka með sólarvörn og eigi það sérstaklega við um ung börn. "Mjög sterk sól sem virkilega brennur er mjög hættuleg með tilliti til stökkbreytinga í húð sem ónæmiskerfinu tekst ekki að eyða. Því er best er að halda ungabörnum sem mest frá sól og þá sérstaklega þegar hún er sem sterkust sem er frá hádegi og til fjögur á daginn. Þá er sólin einnig láréttust sem þýðir að geislarnir koma beint niður á mann. Þá er einnig gott að verja ung börn sólinni með því að láta þau bera derhúfur," segir Bolli. Hann bendir á að geislun sólarinnar sé mun meiri við sjávarflöt eða sundlaug sökum endurkasts. " Það skiptir öllu máli að smyrja sig á þriggja tíma fresti. Vörnin er fljót að fara af sérstaklega ef fólk svitnar mikið eða er í sundlaug. Þetta verður fólk að passa vel nógu vel upp á því það er alltof algengt að fólk smyrji sig aðeins að morgni en svo ekki söguna meir. Þetta er allt spurning um skynsemi og það þarf tvímælalaust vakningu og viðhorfsbreytingu hjá fólki hér á landi varðandi þessa hluti," segir Bolli.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×