Menning

Kanntu að slaka á?

Þegar sumarleyfistíminn skellur á ætla margir að slaka á og koma endurnærðir heim úr fríinu sínu. Því miður gerist það allt of oft að fólk kemur heim eftir tveggja til þriggja vikna frí og er þreyttara en þegar það fór af stað. Margir lifa á svo miklum hraða að þeir kunna ekki að slaka á þegar þeir fá tækifæri til þess. Mikilvægt er að skilja að við höfum öll tamið okkur einhverjar leiðir til að slaka á, annars gætum við ekki lifað, en leiðirnar eru bara misjafnlega áhrifaríkar. Ég er ekki svo hrokafullur að halda því fram að slökun í jóga sé eina leiðin. Margir finna mikla slökun í því að mála, fara í útreiðartúra, fara út að ganga, sitja úti í náttúrunni, liggja í baði og svo má lengi telja. Hins vegar eru álíka margar leiðir sem fólk notar til að slaka á sem skila litlum sem engum árangri. Dagdrykkja áfengis í sumarleyfum er til dæmis örugg leið til að draga úr orku. Mikið sjónvarpsgláp, reykingar, leti og aðrar þær aðferðir sem skila engri orku geta ekki talist slökun. Því skaltu hugsa þig vandlega um þegar þú ferð í sumarfríið. Ætlar þú að endurnæra líkama og sál eða koma heim orkulaus og nota fyrstu dagana eftir sumarfríið til að hlaða batteríin? Markviss slökun skilar sér yfirleitt í aukinni orku. Þitt er valið. Njóttu sumarsins! gbergmann@gbergmann.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×