Innlent

Hákon og Mette á Þingvöllum

Dorrit, Mette-Marit, Hákon og Ólafur Ragnar á Þingvöllum.
Dorrit, Mette-Marit, Hákon og Ólafur Ragnar á Þingvöllum. Getty/Julian Parker
Hákon krónprins Noregs og eiginkona hans, Mette Marit, eru nú á Þingvöllum en þau komu hingað til lands í opinbera heimsókn í gær. Krónprinsinn og -prinsessan snæða hádegisverð á Þingvöllum í boði Sivjar Friðleifsdóttur, umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna.

Í morgun hófst dagskrá norsku hjónanna á því að þau skoðuðu handritin í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu undir leiðsögn Vésteins Ólasonar, forstöðumanns Árnastofnunar. Þaðan var haldið í skoðunarferð um Nesjavelli og síðan til Þingvalla.

Eftir hádegið verður farið í höfuðstöðvar Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga og þaðan í Reykholt í Borgarfirði þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tekur á móti hinum konunglegu gestum og forsetahjónunum, Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff. Eftir skoðunarferð um Snorrastofu og kirkju býður menntamálaráðherra til kvöldverðar í Reykholti.

Opinber heimsókn ríkisarfa norsku krúnunnar heldur áfram á morgun og þau halda svo af landi brott á miðvikudagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×