Menning

Góður andi í Grafarvogskirkju

"Ég varð snemma trúhneigð og þegar ég fermdist fann ég fyrir sterkri trúarþörf. Eflaust er þetta mér mjög eðlislægt því ég hef alltaf séð guð í öllu. Þegar ég var barn og sá fallegt tré hugsaði ég um hvað guð væri góður. Í menntaskóla las ég mikið í biblíunni og langaði til að verða prestur en það var erfitt að viðurkenna það fyrir samfélaginu. Ég reyndi fyrir mér á hinum ýmsu brautum í skólanum og var mjög leitandi. Ég var mikið í keppnisíþróttum og lengst af ætlaði ég mér að verða íþróttakennari. Á endanum lét ég undan sjálfri mér, skellti mér í guðfræðideild Háskóla Íslands og fann um leið að það var það sem ég vildi." Hún þurfti þó ekki að gefa íþróttirnar upp á bátinn og hefur starfað aukalega sem íþróttaleiðbeinandi. Í dag kennir hún sundleikfimi og hefur m.a. tekið að sér kennslu á Grafarvogsdeginum. Lena Rós ólst upp í Ólafsfirði með annan fótinn innan kirkjunnar. Móðir hennar var mjög virk í barnastarfi kirkjunnar og faðir hennar í unglingastarfi. "Þar var líka mjög öflugt æskulýðsstarf og uppeldi mitt hefur líklega gert mig meðtækilegri fyrir trúnni." Nú er Lena sjálf að ala upp börnin sín þrjú og í kirkjunni sinnir hún m.a. æskulýðsstarfi. Hún er ekki í vafa um hvað er ánægjulegast í starfinu sem prestur. "Ég get leyft mér að segja fólki frá guði og Jesú og þessum gleðiboðskap. Hjálpað fólki að opna augun. Á meðan ég var í námi vann ég sem tómstundafulltrúi í Vogum og var í fyrsta sinn á ævi minni utan kirkjunnar. Ég gat auðvitað ekki predikað og talað blátt áfram um guð í slíku starfi. Nú fæ ég svalað þessari þörf fyrir að boða guð og get notað tækifærið þar sem fólk er. Hér í Grafarvogskirkju er alveg ótrúlega gott að vera og frábær starfsandi. Mér þykir mjög sérstakt að koma ný inn á svona stofnun þar sem fólkið algjörlega ber mann á örmum sér. Ég þarf að keyra langa leið til að komast í vinnuna á morgnana en ég brosi bara alla leið, það er svo gott að koma í vinnuna." Lena hyggst nú flytja frá Suðurnesjum og setjast að nær starfsumhverfi sínu í Grafarvoginum ásamt fjölskyldunni. "Sem átján ára unglingur var dálítið hallærislegt að segjast vilja verða prestur," hlær Lena Rós Matthíasdóttir, en hún var sett inn í embætti prests við Grafarvogskirkju ekki alls fyrir löngu. thora@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.